143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í gær urðum við vitni að því að enn og aftur vilja starfsmenn Útlendingastofnunar senda eiginkonur og eiginmenn Íslendinga úr landi í hræðilega óvissu þar sem þau geta átt á hættu að vera pynduð og jafnvel drepin.

Það var dregið til baka að senda hana út en ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um að senda burt konu Íslendingsins Gísla Jóhanns Grétarssonar sem heitir Izekor.

Fyrirhuguð eru mótmæli núna kl. 12 við lögreglustöðina við Hlemm og ég hvet sem flesta til að mæta þangað. Þessi vinnubrögð eru algjörlega óþolandi.

Í 10. gr. útlendingalaga segir:

„Með fyrirvara um ákvæði 45. og 46. gr.“ — þar sem kveðið er á um hælisleitendur — „skal útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins“ — já — „og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt.“ — Já, ókei. — „Frá þessu má víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því eða samkvæmt reglum sem ráðherra setur.“

Þá spyr maður sjálfan sig: Eru það ekki nægar sanngirnisástæður fyrir Útlendingastofnun að ekki skuli víkja úr landi einstaklingi sem kemur hingað og giftist Íslendingi, út í óvissu, pyndingar jafnvel og dauða? Dugar það ekki til að málið verði tekið til meðferðar frekar en að handtaka einstaklinginn og víkja honum úr landi? Ef það eru ekki nægar sanngirnisástæður fyrir Útlendingastofnun er alveg ljóst hvar ábyrgðin liggur. Ráðherra getur með reglum gefið þessa undanþágu.

Við verðum að vona að það sem gerðist í innanríkisráðuneytinu í gær, það var talað um þetta, að fest verði stefna um þetta og sett regla hvað þetta varðar. Við getum ekki lengur boðið Íslendingum upp á það að (Forseti hringir.) makar þeirra séu sendir út í óvissu og mögulega dauða.