143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi fundaði ég með flokknum mínum, Pírötum, um tvö frumvörp sem eru nú til afgreiðslu á þinginu, frumvarp um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og frumvarp um lífsýnasöfn. Þar, eins og alltaf þegar þessi tvö frumvörp ber á góma, varð mjög góð umræða. Í morgun fór ég á fund í velferðarnefnd og þar varð önnur mjög góð, holl og mikilvæg umræða um þessi mál. Þetta eru mál sem eru þess eðlis að þau þurfa mjög víðtæka umræðu, ekki bara hér á þingi heldur líka hjá þjóðinni.

Eitt af þeim vandamálum sem ég stend frammi fyrir er að á lokuðum nefndarfundum þarf ég að tikka niður glósurnar mínar og síðan þarf ég ýmist að útskýra þær fyrir einhverjum öðrum enda þarf ég oft að rita þær hratt. Ég þarf að virka sem ákveðinn tengiliður milli nefndarmanna, þess sem kemur fram á nefndarfundum í þinginu, og síðan skjólstæðinga minna og okkar allra. Þetta finnst mér algjör óþarfi. Það mundi spara okkur mikið erfiði við að ná fram upplýstri og góðri umræðu um slík mál ef nefndarfundir væru einfaldlega opnir að jafnaði.

Enn fremur skil ég ekki alveg hvers vegna við þurfum að hafa fundina lokaða. Ég sé ekki hvað kemur í veg fyrir að við opnum þá. Þingfundir eru opnir. Það er ekki dýrt að setja upp búnað sem gerir okkur það kleift. Ég sé engar málefnalegar ástæður fyrir því og upplifun mín á fundum í nefndum þingsins er ekki sú að þar komi almennt eitthvað fram sem ekki megi líta dagsins ljós. Almennt finnst mér að þingmenn ættu að taka undir þetta, þetta mundi spara okkur mikla vinnu í samskiptum okkar við þjóðina. Þetta mundi hjálpa þjóðinni að taka meiri þátt í því sem við gerum og skilja betur hvað er í gangi hérna, skilja betur þau rök sem við þurfum síðan að útskýra fyrir fólki þegar allt fer til fjandans vegna skorts á umræðum.

Það er hægt að setja slíkar reglur að gestir geti beðið um að fundir séu lokaðir. Það er hægt að haga því eftir málum, það er hægt að gera ýmislegt, en fundir eru að jafnaði lokaðir og mér finnst það algjörlega sjálfsögð krafa í gegnsæju lýðræðisþjóðfélagi að þeir séu opnir. Ég hvet alla þingmenn til að taka undir með mér og öðrum pírötum í því efni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)