143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og velti því upp að það styttist í þinglok. Eða hvað? Núverandi ríkisstjórn gagnrýndi harðlega fyrrverandi ríkisstjórn fyrir það hversu seint mál komu fram, en hver er staðan? Við sitjum uppi með ráðalausa ríkisstjórn sem nær ekki saman um dagskrá þingsins hér á lokadögunum, varpar ábyrgðinni á minni hlutann í stað þess að axla eigin ábyrgð.

Nú þegar eiginlegir tveir þingdagar eru eftir, á morgun er eldhúsdagur og svo er þingfrestunardagur, er dagskráin þétt og heilmikið enn óafgreitt í nefndum. Ofan á allt saman er til umfjöllunar stóra kosningaloforðið, heimsmetið, sem á eftir að afgreiða og er í miklum ágreiningi innan stjórnarflokkanna, eins og komið hefur fram m.a. hjá tveimur hv. þingmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd sem hafa lýst því yfir að þeir geti ekki stutt málið. Enda er það svo sem ekkert skrýtið þar sem stóra skuldaniðurfellingin hefur verið gagnrýnd mjög víða og flestir gestir fjárlaganefndar bentu á að mjög mikil óvissa tengdist fjárhagslegum áhrifum aðgerðanna. Einhver af þeim sem tóku þá ákvörðun að leggja inn á greiðslujöfnunarreikning vegna erfiðrar stöðu sinnar hafa væntanlega búist við því að það létti verulega á greiðslubyrðinni með skuldaniðurfellingarloforði ríkisstjórnarinnar, en svo er ekki. Næsta eina og hálfa árið, eins og staðfest var hér af þingmanni Framsóknarflokksins í ræðu í gær, fá fjármálastofnanirnar fyrst sitt, þ.e. fyrstu 20 milljarðarnir, þessi útgreiðsla sem á að eiga sér stað fer fyrst og fremst til fjármálastofnana og leysir því ekki greiðsluvanda fólks.

Það er líka vert að halda því til haga að ef bankaskatturinn skilar sér ekki að fullu hefur komið fram að þá verður skorið niður í ríkisrekstrinum til að fjármagna aðgerðirnar.

Svo má velta fyrir sér hvað herlegheitin munu kosta. Skyldi sá kostnaður verða meiri en raunverulega fer til niðurfellingar til handa heimilum landsins?