143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni þegar hann talar um að við ættum að íhuga alvarlega að hafa það sem almenna reglu að hafa nefndarfundi opna. Ég held að það sé nokkuð sem við ættum að fara vel yfir og mér finnst það koma mjög vel til greina.

Maður sér það á ferðum sínum um heiminn að allrahanda, í það minnsta á sveitarstjórnarstiginu og fylkisstiginu, nefndarfundir eru opnir og virðist það vera almenn regla og þeir vera á sérstökum rásum. Ég held að það mundi hjálpa fólki að skilja störf þingsins, átta sig á því hvernig hið lýðræðislega fyrirkomulag virkar í fulltrúalýðræðinu okkar. Það er nokkuð sem ég held að sé gott fyrir alla, að menn átti sig á því hvaða starf fer fram í hv. þingnefndum. Það yrði vonandi til þess, ef við færum slíka leið, að umræðan yrði málefnalegri og byggði meira á staðreyndum og fólk hefði þar af leiðandi betri aðgang að upplýsingum um mál sem varða þau öll.

Ég hvet til þess að við skoðum þetta af fullri alvöru.

Af því að hér koma hv. stjórnarandstæðingar upp og segja að það sé allt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvernig þingstörfin gangi vil ég líka biðja hv. stjórnarandstöðuþingmenn að tala ekki gegn betri vitund. Við vitum að það er búið að vera fullkominn hægagangur í störfunum í margar vikur vegna þess að hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa talað mikið í málum sem þeir mundu annars ekki gera til að skapa sér stöðu hér á síðustu dögum þingsins. Þetta er alla jafna kallað málþóf en einhverra hluta vegna hefur það orð (Gripið fram í.) ekki verið notað núna. Hver sá sem vill (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) — ég veit, má ég klára fyrir hv. stjórnarandstöðu? Það getur hver og einn kannað þetta, það getur hver og einn skoðað þetta (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er allt á vefnum. (Gripið fram í: Og borið saman við síðasta kjörtímabil.)