143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:59]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs undir þessum dagskrárlið til að vekja athygli á tilteknum málum en lét færa mig neðar á mælendaskrána til að hlýða á söguskýringar og spurningar hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Fyrst þau mál sem ég ætlaði að taka hér upp. Í fyrsta lagi hillir undir þinglok, hvort það er á næstu dögum eða vikum vitum við ekki. Tvennt þurfum við að fá fram frá stjórnvöldum áður en þingið fer heim. Í fyrsta lagi: Hvernig skýrir ríkisstjórnin það að sveitarfélögin á Suðurnesjum eru komin í mál við Vegagerðina, innanríkisráðuneytið og þar með framkvæmdarvaldið vegna þess að brotið hefur verið á samningum? Sagt var upp tilteknum þætti samnings sem gerður hafði verið við sveitarfélögin og þetta er núna komið fyrir dómstóla og skaðabótaskylda hugsanlega þarna uppi. Þetta þurfum við að fá upplýst áður en þingið fer heim.

Í öðru lagi hljótum við að vilja vita hvað gerist við ferðamannastaði hér í sumar. Málið er komið í algert óefni. Hér voru sjálfskipaðir gjaldheimtumenn farnir að stilla fólki upp og hafa af því peninga. Ríkisstjórnin aðhafðist í rauninni ekkert í málinu og hefur haldið illa á þessu máli. Við þurfum að fá umræðu um þetta og yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um hvað hún er að gera í þessum málum.

Síðan varðandi spurningu og vangaveltur hv. þm. Péturs H. Blöndals. Verkfallsrétturinn er eina vopnið sem launafólk hefur. Ef því eru boðin kjör sem það telur ekki ásættanleg hefur það rétt til þess að leggja ekki fram vinnu sína. Við höfum hér, þingið og löggjafinn, búið til ákveðinn ramma utan um verkfallsrétt og hvernig á að beita honum. Ég tel að það eigi að virða þann rétt. Ég tek hins vegar fram að verkfallsréttinum verður að beita af réttlæti. Það er grundvallaratriði. (Forseti hringir.) Ég vil taka þátt í umræðu um hvenær ég tel það vera gert og hvenær ekki. Ef við hins vegar beitum lögum til að hafa þennan rétt af fólki er skapað fordæmi sem er varasamt gagnvart allri launaþjóðinni. Ég mun því aldrei greiða atkvæði með því að sett verði lög á launafólk.