143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[12:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt að hafa miklar áhyggjur af þeirri kjaradeilu sem er uppi milli flugliða og Icelandair, bæði flugmanna sem nú hafa stundað skyndiverkföll um nokkra tíð og einnig flugfreyja sem boðað hafa aðgerðir. Fjöldi ferðamanna hefur þurft að breyta áætlun sinni til að komast á áfangastað með ærnum óþægindum.

Það segir ekki alla söguna. Áhrif verkfallsins koma ekki einungis fram hjá Icelandair, þau koma fram í allri ferðaþjónustunni. Nú berast fréttir af afbókunum hjá hótelum í landinu, bílaleigum, afþreyingarfyrirtækjum og því hefur verið haldið fram að hver dagur sem Icelandair flýgur ekki til og frá landinu kosti 1 milljarð kr. Þetta eru gríðarlegar upphæðir og við þurfum að forðast það eins og heitan eldinn að rýra þann árangur sem náðst hefur í ferðaþjónustunni undanfarin ár, eða skaða orðsporið sem ferðaþjónustan hefur byggt upp, með aðgerðum af þessu tagi. Það er næsta víst að við svo búið má ekki standa. Við þolum ekki að þessi grein, sem er vaxtarsproti, verði fyrir tjóni af völdum vinnudeilna.

Ég hvet deilendur einlæglega til að setjast nú þegar niður og reyna að nálgast hvor annan af sanngirni og í alvöru til að forða því að hér verði stórtjón af völdum vinnudeilna milli Icelandair og flugliða.