143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[12:07]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Misnotkun áfengis og vímuefna er alvarlegt heilbrigðisvandamál sem hrjáir einstaklinga á öllum aldri. Neyslan er alþjóðlegt vandamál sem stjórnvöld hvarvetna í heiminum leggja áherslu á að berjast gegn. Hún veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélögum skaða sem tengist margvíslegri glæpastarfsemi, heilsubresti og félagslegum vandamálum. Marga sjúkdóma má rekja beint til ofneyslu áfengis og vímuefna, svo sem krónískrar lifrarbólgu, skorpulifur og áfengiseitrun. Ofneysla getur einnig átt þátt í sjúkdómum, svo sem blóðrásar- og hjartasjúkdómum og krabbameinum.

Meginflokkar heilsutengds kostnaðar vegna misnotkunar áfengis og vímuefna eru útgjöld vegna læknismeðferða, töpuð framleiðsla og ótímabær dauði. Alkóhólismi er stór þáttur í lífi okkar. Þeir eru allmargir sem ekki geta unnið fyrir sér og sínum vegna sjúkdómsins og þurfa aðstoð til að komast út úr áfengisbölinu. Það skiptir miklu máli að hjálpa þeim sem vilja hjálpina.

Rannsóknir sýna að um 20% þeirra sem hefja áfengisneyslu verða alkóhólistar hvort sem þeim líkar það betur eða verr og verða oft veikir, svo veikir að vinna, fjölskylduhagir og félagsleg færni kemst í uppnám. Meðferðarúrræði á Íslandi eru með þeim bestu miðað við nágrannalöndin en fjármagn til meðferðar er ekki nægt. Alkóhólisti er meira virði edrú en drukkinn. Með öðrum orðum; það kostar samfélagið mikinn pening að ákveðinn fjöldi fólks skuli vera heilsulaus vegna drykkjuskapar, fíkniefnaneyslu, spilafíknar og/eða annarrar fíknar.