143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[13:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hafa menn verið að ræða þetta náttúrlega í tvenns konar samhengi; hvað er gott fyrir einstaklinginn, hvað þykir einstaklingnum gott, hvað vill hann, og svo erum við að skoða þetta líka í þjóðhagslegu ljósi, hvaða áhrif hefur þetta á ökónómíuna? Þar hefur mér alltaf fundist og bólar á því aftur núna í þessari umræðu að jafnan ef eitthvað er gert fyrir hinn almenna launamann, hann hækkaður í launum eða vextir lækkaðir, þá er mikil óáran fram undan. Ég hef aldrei alveg skilið þá umræðu eða aldrei viljað taka undir hana, en mér finnst ágætt að horfa til þess og spyrja: Hvað vil ég? Hvað mundi ég vilja að yrði gert gagnvart sjálfum mér? Þá mundi ég vilja þetta: Ég mundi vilja fá aðstoð við að taka peningana mína sem ég hef lagt til hliðar, og ég geri af fúsum og frjálsum vilja, færða yfir í þennan sparnað sem lækkar skuldirnar mínar.

Ef það síðan stuðlar að sparnaði að ríkið komi þar á móti með skattafslætti þá finnst mér það vera hið besta mál. Reyndar vildi ég ganga lengra í kerfisbreytingu og skattleggja iðgjöldin en ekki greiðslurnar út úr lífeyrissjóðunum, snúa þessu á hvolf. Síðan er margt annað í þessum áformum ríkisstjórnarinnar sem ég get alls ekki skrifað upp á, finnst mér þá aðallega vanta inn í pakkann frá hinni félagslegu hlið. Það er önnur umræða sem við tökum kannski og ég mun taka þátt í að ræða varðandi hitt frumvarpið sem bíður okkar síðar í dag.