143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum öll sammála um það í þessum sal að mjög mikilvægt er að ná niður skuldum. Menn hafa horft til skulda sveitarfélaga, menn hafa horft til skulda ríkisins, sem er okkar sameiginlegi sjóður, og við horfum til skulda heimilanna. Ég er einmitt að tala fyrir því að við reynum að stuðla að því að við náum skuldsetningunni niður á öllum þeim sviðum og þá ekki síst hjá heimilunum.

Það er líka rétt að eignir geta orðið til í þessu kerfi sem við búum við á örskotsstundu og þær geta líka horfið í einu vetfangi. En það er ein eign ef við eigum hana, hvort sem það er í séreignarhúsnæði eða í búsetuformi einhvers konar eða í öðru fyrirkomulagi sem tryggir rétt einstaklingsins, þá er það nokkuð sem tryggir einstaklingnum og fjölskyldunni í ellinni mest öryggi. Það er nú bara staðreyndin. Og ef mér finnst það um sjálfan mig, ætli það gildi ekki um okkur ansi mörg? Þetta er veruleikinn. Þess vegna er mikilvægt að við grípum til ráðstafana til þess að tryggja öryggi fólks að því leyti.