143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta snýst um öryggi, þ.e. húseign viðkomandi einstaklings, og svo er það auðvitað líka partur af sparnaðinum í framtíðinni. Hið eðlilega, ef svo er hægt að segja, eða hið dæmigerða fjölskyldulífsmynstur er einhvern veginn þannig, alla vega er hugmyndin augljóslega sú þegar við skoðum skipulagsfræðina, að fólk eigi tiltölulega stórt húsnæði þegar það kemur sér upp fjölskyldu, elur upp börn upp sín og annað slíkt, en síðan á það að vera þannig, að vísu er misjafnt eftir einstaklingum hvað þeir velja sér, að fólk minnki við sig og fari í húsnæði sem hentar þeim betur. Það er líka vel þekkt í ýmsum löndum að menn gera allra handa samninga þegar kemur að sölu á húsnæði þeirra sem það hefur búið í stærstan hluta ársins. Þetta er í rauninni alltaf hvor sín hliðin á sama peningnum, skuldir og sparnaður eru hvor sín hlið á sama peningnum. Og auðvitað er húsnæði öryggismál (Forseti hringir.) en það er líka sparnaður.