143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Óskaplega eru þetta nú rýr svör. Það er skoðun hv. þingmanns að málþófið á síðasta kjörtímabili hafi verið verra en málþófið sem stendur yfir núna sem stjórnað er af (KaJúl: Það voru 20 mál.) vinstri flokkunum (KaJúl: Það tókst að afgreiða 20 mál í gær.) sem eru nýkomnir út úr miklum kosningaósigri, guldu afhroð í kosningunum. Þá er þetta málþóf langtum betra en málþófið á síðasta kjörtímabili. (OH: Hver er að stunda málþóf hér?)

Þingmenn Framsóknarflokksins börðust fyrir þjóðarhagsmunum á síðasta kjörtímabili (KaJúl: Oh.) þegar við börðumst gegn því að ríkisstjórninni tækist í þrígang að koma Icesave-skuldaklafanum yfir á íslenska skattgreiðendur. Þar var barist upp á líf og dauða og endaði þannig að viðurkenning fékkst fyrir EFTA-dómstólnum, þannig að því sé haldið til haga. Að hafna því hér í dag að þetta sé málþóf er barnaskapur, það er barnalegt í meira lagi, virðulegi forseti, en þetta þurfum við að kljást við, að vinstri flokkarnir sem stýrðu síðustu ríkisstjórn geta ekki með nokkru móti unnið með okkur að því að heimilin í landinu fái skuldaniðurfellingu eða á einhvern hátt tillögur (KaJúl: 20 mál afgreidd í gær.) til betri sparnaðar. (KaJúl: 20 mál …)

Það er ekki nema von að það sé kliður í þingsalnum þegar ég bendi á sannleikann, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Hér er gripið fram í eins og vinstri menn kunna svo vel.

Hv. þingmaður gerði tilraun til þess að svara spurningu minni um álit Landssamtaka lífeyrissjóða þar sem fram kom að leiðin varðandi séreignarsparnaðinn hefði jákvæð áhrif til lengri tíma litið vegna þess að fleiri færu að greiða þar inn, en hv. þingmaður sér eftir þeim skatttekjum sem ríkið verður af í þeirri leið. Þá ætla ég að benda á að stjórnarflokkarnir eru alls ekki að finna upp hjólið í þessum skattaniðurfellingarleiðum. Þetta er alveg sama leið og farin var þegar landsmenn voru hvattir til sparnaðar með hlutafjárkaupum (Forseti hringir.) á sínum tíma, þannig að þetta eru nú ansi haldbær rök, virðulegi forseti.