143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég frábið mér þau orð sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir viðhafði áðan í andsvörum við hv. þm. Árna Pál Árnason. Hér hefur stjórnarandstaðan verið í málefnalegri umræðu um þetta stóra mál. Hér hafa verið fluttar mjög innihaldsríkar ræður, líka af þingmönnum stjórnarflokkanna, og ekki síst hafa þingmenn Framsóknarflokksins verið í andsvörum við þingmenn stjórnarflokkanna á málefnalegum forsendum. Það er ekki málþóf, virðulegur forseti.

Hér voru afgreidd 20 þingmál í gær. Stjórnarandstaðan hefur greitt fyrir því að ríkisstjórnin fái mál á dagskrá með afbrigðum. Innlegg hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í þessa umræðu hér er ekki til þess að greiða fyrir þingstörfum svo það sé algerlega ljóst, þvert á móti.

Og ég spyr: Hvar er hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins? Ég kalla eftir því að hún komi hingað og tjái sig um framgöngu þingmannsins Vigdísar Hauksdóttur.