143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hélt hér ræðu í gær og ég ætlast til þess að umræður hér fái að ganga eðlilega fyrir sig. Við erum að tala um efnahagsaðgerð sem mun hafa gríðarleg áhrif á ríkissjóð og það veldur mér þó nokkrum áhyggjum í þessari umræðu að helsta innkoma formanns fjárlaganefndar sé að skensa okkur sem erum að ræða þessi áhrif.

Ég ætla til dæmis á eftir, frú forseti, sem þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður að ræða sérstaklega umsögn Reykjavíkurborgar sem er einmitt líka kjördæmi hv. formanns fjárlaganefndar.

Frú forseti. Það er óviðunandi að þegar annað eins mál er rætt, mál sem hefur ófyrirséðar og mögulega hættulegar afleiðingar, (Forseti hringir.) sé leyfð svona framkoma við okkur sem erum hér að (Forseti hringir.) verja hagsmuni fólksins sem býr í þessu landi.