143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Er það ekki málþóf hjá stjórnarandstöðunni þegar ég lét taka það saman á upplýsingasviði þingsins í lok mars að það var búið að tala í tvo daga um fundarstjórn forseta? Í 14 klukkustundir. [Háreysti í þingsal.] Er það ekki málþóf, virðulegi forseti? Svo stöndum við hér og það er verið að teygja lopann. Það var búið að semja hér um þinglok (Gripið fram í: Nei.) og það er (Gripið fram í: Nei. Alls ekki.) málþóf núna. (SII: Ekki veitir af.)

Virðulegi forseti. Það er harla hallærislegt og aumkunarvert þegar hér er verið að tala efnislega um að stjórnarandstaðan sé í málþófi að ráðast á mig sem persónu. Sendiboðinn er sem sagt skotinn. Það er ekki rætt um það að stjórnarandstaðan, vinstri flokkarnir, nýkomnir úr ríkisstjórn eftir sögulegt afhroð í kosningum, stundar hér málþóf og er á móti því að heimili landsins fái bætur sem ekki var hægt að verða við á síðasta kjörtímabili.