143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir sanngjarna ræðu hér í stólnum. Staðreyndin er sú að það er búið að ræða þetta mál í átta klukkutíma núna allt í allt. Hvað eru átta klukkutímar þegar við erum að ræða um að undir þessum hluta málanna séu 80 milljarðar? Við höfum þá farið yfir 10 milljarða á klukkustund.

Ég hef ekki sett mig á mælendaskrá í þessu máli vegna þess að við vorum búin að ákveða að ákveðnir aðilar úr okkar þingflokki ræddu þetta mál. Ég get hins vegar ekki orða bundist yfir því hvernig hér er verið að reyna að þagga niður í okkur. Ég held að ríkisstjórnin sé einfaldlega með böggum hildar vegna þessa máls. Hvorki formaður Framsóknarflokksins né formaður fjárlaganefndar, sem er fulltrúi Framsóknarflokksins, hafa látið svo lítið að (Forseti hringir.) sitja hér og hlusta á þessa umræðu. Framsögumaður málsins (Forseti hringir.) er farinn að skrifa um það á bloggsíðu sína að við (Forseti hringir.) séum í málþófi um málið. Honum er þá vorkunn vegna þess að hann hefur ekki heldur setið hérna (Forseti hringir.) … Átta klukkutímar, virðulegi forseti, þegar við erum að ræða svona stór mál eru ekki neitt.