143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að hafa gert grein fyrir þeim umræðum sem fóru fram á fundi þingflokksformanna þar sem var sameiginlegur skilningur okkar allra á góðum fundi hjá hæstv. forseta að þessi umræða þyrfti að fá þann tíma sem henni bæri.

Það var sameiginlegur og mjög mikilvægur skilningur.

Það gerir mig leiða þegar hv. formaður fjárlaganefndar kemur hér fram með hálfkæring og fliss og frammíköll á lágu plani, sýnir viðleitni til þöggunar og talar um málþóf. Enn verra finnst mér, vegna þess að ég hef mætur á hv. þm. Willum Þór Þórssyni, að hann skuli viðhafa sama skilning í bloggfærslum. Sú staða er komin upp hér, virðulegur forseti, að við þurfum hlé á fundi til að fá fund þingflokksformanna til að skerpa á þeim skilningi að hér eigi umræðan að fara fram óhindruð (Forseti hringir.) og að okkur sé ekki brigslað um málþóf þegar við eigum í eðlilegum skoðanaskiptum. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að virðulegur forseti hlutist til um þingflokksformannafund.