143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér í dag eins og í gær hefur verið mjög málefnaleg umræða um málin. Við afgreiddum 20 mál í gær þannig að það stóð ekki á okkur hér að gera það. Í dag hefur umræðan verið mjög málefnaleg að mínu áliti. Hv. stjórnarþingmenn hafa haldið uppi samræðum við ræðumenn og mér fannst þetta fín umræða alveg þar til hv. þm. Vigdís Hauksdóttir steig í pontu.

Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að skýra stöðuna hér, en hlýt að taka undir með þeim sem hafa beðið um hlé á þessum fundi til að skerpa á stöðunni. Það er alveg ljóst að hv. þingmenn Framsóknarflokksins eru ekki á sama stað og aðrir þingmenn í þessum sal. Forustumenn hans og forustumenn annarra þingflokka hljóta að verða að setjast niður og (Forseti hringir.) greiða úr þessum flækjum.