143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá hugulsemi í minn garð sem formanns fjárlaganefndar sem birtist í þessum ræðum. Þetta hefur greinilega hreyft við einhverjum því að hvað er það annað en málþóf, eins og ég benti á áðan, þegar í lok mars voru komnar 14 klukkustundir af ræðum um fundarstjórn forseta? [Háreysti í þingsal.] Stjórnarandstaðan er búin að stunda málþóf allt frá áramótum (Forseti hringir.) og hún á ansi erfitt með að viðurkenna það. Ég hef hins vegar aldrei verið verkkvíðin og vildi hreinlega óska þess að hér yrði sumarþing þannig að þá væri hægt að ræða þessi mikilvægu mál sem eru á dagskrá og taka ESB-tillöguna á dagskrá þingsins. (Gripið fram í: Já.) Það er eðlilegt fyrst það er verið að stunda málþóf í þessum málum.

Hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni vil ég benda á, þegar hann hefur áhyggjur af því að formaður fjárlaganefndar hafi ekki tjáð sig mikið í þessu máli, að það fór órætt og ekki í gegnum þingið þegar hann skuldbatt á einni nóttu ríkissjóð upp á (Forseti hringir.) 300 milljarða í erlendum gjaldeyri þegar hann setti ólögvarða Icesave-kröfu inn í nýja Landsbanka. Sjáum hvernig það var. Órætt.