143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég hef tekið eftir því að svo virðist sem þingmenn Framsóknarflokksins geri allt sem þeir geta til að komast hjá sumarþingi. Það er mikil pressa á að fá að klára þetta ESB-mál, það er bara þannig. Það er óánægja með það og það er greinilega óánægja á stjórnarheimilinu með framgang mála, að okkur þingmönnum sé að takast að ná mjög góðu samkomulagi um hvernig við ætlum að afgreiða þingið og okkar störf.

Ef okkur tekst að ná samningnum sem við erum mjög nálægt náum við að sögulegum samningi fyrir þingræðið af því að aldrei verða afgreidd eins mörg þingmannamál. Það að reyna að standa í vegi fyrir þessu samkomulagi er sorglegt, einsmálssérhagsmunastefna Framsóknarflokksins. Ég vona að ekki allir þingmenn Framsóknarflokksins ætli að taka þátt í þessum hildarleik.