143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi hér er það áhyggjuefni hvaða hópar virðast lenda utan garðs þegar kemur að þessu. Það eru tekjulægri hóparnir, það eru hóparnir sem eru á leigumarkaði. Við ræddum það stuttlega við 1. umr. málsins og átti ég þar orðastað við hæstv. fjármálaráðherra. Ég lýsti þeim áhyggjum mínum að leigjendur yrðu utan garðs í þessari aðgerð líka þó að hann vildi meina að þeir ættu þarna inni. Teoretískt séð, að sjálfsögðu, eiga leigjendur að geta nýtt sér þetta en staðreyndin er sú að húsnæðiskostnaður þess hóps til að mynda er jafnvel hærri en þeirra sem hafa keypt sér íbúð fyrir utan að þetta eru samkvæmt þeirri greiningu sem fyrir liggur tekjulægri einstaklingar, þannig að það er auðvitað áhyggjuefni.

Hið sama má segja um lífeyrisþega og námsmenn þannig að það eru að því er virðist þeir hópar sem hættan er á að geti ekki nýtt sér þetta.

Þá komum við aftur að framtíðarsýninni, hvort það sé kannski ástæða til að taka þetta sparnaðarkerfi til einhverrar heildstæðrar endurskoðunar þannig að allir sitji þá við sama borð.