143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki nokkurn vafa á að allir eru sammála mér um að auðvitað væri æskilegra að ræða mál af þessari stærðargráðu ef einhver framtíðarstefnumótun lægi fyrir og við hefðum til að mynda fengið þó ekki væri nema útlínur að hugmyndum um nýtt húsnæðiskerfi. Mér finnst það strax setja þessa umræðu á annað plan, getum við sagt.

Að sjálfsögðu hefði ég óskað þess að við hefðum haft meiri tíma. Það lá hins vegar fyrir þegar við ræddum um þingstörf að þau stóru mál sem ríkisstjórnin setti á oddinn yrðu kláruð á starfsáætlun þingsins. Það hefur legið fyrir allan tímann. En eins og ég segi teldi ég æskilegt að við gæfum okkur meiri tíma í að ræða stefnumótun, annars vegar í húsnæðismálum og hins vegar þá sem lýtur að lífeyrissjóðakerfinu. Það sem ég tel hafa skort á er að við ræðum dálítið undirstöðuna í því kerfi og hvernig við hyggjumst þróa það áfram hér á landi.