143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ræðuna. Ég hjó eftir því og þótti það frekar athyglisvert að hún vildi beina fyrirspurnum til okkar tveggja hv. þingmanna og andsvarenda hér. Ég hyggst svara þeim við annað tækifæri ef ég fæ andsvar frá hv. þingmanni við mína ræðu.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að þetta væri ekki almenn aðgerð. Nú kemur það fram í sviðsmyndum — nú tek ég bara þá sem ekki eiga fasteign heldur vilja og geta kannski sparað — að um það bil 70.400 heimili eða fjölskyldur geta gert það, samkvæmt því sem segir á bls. 6 í frumvarpinu. Síðan kemur í ljós, lítið eitt aftar, að á bilinu 43–56 þús. fjölskyldur eða heimili geta nýtt sér þessi úrræði. (Forseti hringir.)

Ég spyr: Hversu marga þarf til til að hægt sé að tala um almenna aðgerð?