143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Nú hef ég tilhneigingu til að horfa á þessi tvö mál saman, þ.e. málið sem hér er til umræðu nú og það mál sem ekki hefur enn komist á dagskrá. Þau munu samtals snerta allt að 120 þús. heimili í landinu og ég verð að viðurkenna að mér finnst það býsna almenn aðgerð.

Það hefur aftur á móti verið siður í umræðunni til þessa að ræða málefni hópa sem ekki eru sérstaklega tilteknir í þessum tveimur málum. Hins vegar hefur nýlega verið skilað skýrslu um þá frá starfshópi húsnæðismálaráðherra sem verður væntanlega grundvöllur að því að unnið verði að úrræðum fyrir aðra hópa sem þessi skilyrði og þessi atriði taka ekki til.

Að öðru leyti, af því að ég ætlaði nú ekki að æsa skap hv. þingmanns sem sagði að henni hefði runnið í skap áðan af því að rætt var um að málið hefði tafist eða að það hefði ekki (Forseti hringir.) hlotið hraðan framgang í meðförum þingsins, þá vil ég spyrja: Telur hv. þingmaður að umræðan í gær (Forseti hringir.) og í dag og það sem við sjáum fram undan sé í samræmi við þau fyrirheit stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) frá því í sumar sem alloft hafa verið þau að þessum málum verði hraðað í gegnum þingið?