143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það mjög góð meðmæli með hv. þingmanni að hanni vilji ekki að mér renni í skap, og tel það sýna góða mannþekkingargreind.

Ég vil nefna út frá orðum hv. þingmanns áðan að í frumvarpinu er líka bent á þær fjölskyldur sem ekki eiga fasteign, meiri hluti þeirra leggur ekki inn á séreignarsparnað. Þá kemur að þeim hópi sem hv. þingmaður nefnir hér að eigi heima í öðrum úrræðum, en þá getum við sagt, og komið aftur að gagnrýni minni, bara svo að við séum sanngjörn: Hefði þá ekki verið gott að við hefðum haft alla heildarmyndina undir? Þannig gætum við verið við að ræða húsnæðisstefnu til framtíðar um leið og við værum að ræða þessi stóru mál.

Ég held að það hefði aukið skilning gagnvart þessum úrræðum í samhengi, af því að hv. þingmaður nefndi að mikilvægt væri að setja þetta í samhengi. Þá segi ég: Það væri líka mikilvægt að hafa hér framtíðarhúsnæðisstefnu.

Hvað varðar skilning minn á því hvað við höfum sagt um það að greiða leið þessara mála í gegnum þingið lít ég svo á að við séum að gera það. Það að greiða leið mála í gegnum þingið þýðir hins vegar ekki að maður sé sammála málunum eða áskilji sér ekki rétt til að ræða þau innan eðlilegra marka. (Forseti hringir.) Það er nákvæmlega það sem við erum að gera hér. Alþingi Íslendinga er málstofa (Forseti hringir.) sem snýst um að skiptast á skoðunum og skiptast á gagnrýni. (Forseti hringir.) Þótt hæstv. forseti banki hér í bjölluna minni ég á orð mín: Það skiptir máli að hlusta á alla gagnrýni (Forseti hringir.) því að það getur fært mann nær sannleikanum.