143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að gagnrýnin hugsun og gagnrýnin umræða er alltaf af hinu góða og leiðir til betri niðurstöðu.

Mig langar að spyrja vegna þess að það hefur líka farið töluvert fyrir því í umræðunni að fyrri ríkisstjórn, sem hv. þingmaður var ráðherra í, hafi ekki gert nægilega mikið þegar kemur að skuldamálum heimilanna. Sú gagnrýni hefur m.a. komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem talaði hér fyrr í dag og lýsti ánægju með þetta mál. Ég man ekki betur en að í kosningasjónvarpi úr Kraganum hafi sá ágæti þingmaður og flokksfélagi þingmannsins lýst því yfir að hann vildi að gengið hefði verið lengra varðandi skuldsett heimili á síðasta kjörtímabili. Telur hv. þingmaður að fyrri ríkisstjórn hafi gengið nægilega langt í því að leiðrétta og bæta hag skuldsettra heimila í landinu? Ef þingmaðurinn telur að ekki hafi verið gengið nógu langt, erum við þá ekki að stíga hér mikilvæg skref með því að leiðrétta stöðu þessara heimila (Forseti hringir.) eða var þetta allt saman (Forseti hringir.) eins og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra sagði, að búið væri að gera nóg fyrir skuldsett heimili? (Forseti hringir.) Hann sagði það um mitt síðasta kjörtímabil.