143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni þessa spurningu. Þetta er risastór spurning til að svara á einni mínútu en það er sýnt að við erum komin með tillögu um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem í raun er gert ráð fyrir að við breytum algerlega formi þessa séreignarsparnaðar yfir í einhvers konar húsnæðissparnað. Sú grundvallarstefnubreyting hefur kannski ekki verið rædd í neinum tengslum við þetta mál hér sem við erum fyrst núna að ræða af einhverju viti. Þá hljóta að vakna spurningar hjá mér og það er ekki vegna þess að ég sé búin að leysa þau mál, síður en svo, heldur velti ég fyrir mér hvernig við sjáum nákvæmlega fyrir okkur þróun lífeyrissjóðakerfisins.

Því er haldið fram í nefndaráliti meiri hlutans að þessi aðgerð létti aðeins þrýstingi af lífeyrissjóðunum, en ég velti því fyrir mér hvort við séum ekki að horfa fram á, út frá líffræðilegum rökum og öðru, vaxandi vanda í lífeyrissjóðakerfinu til lengri tíma. Erum við komin með einhver svör við því? Er ekki tímabært að fara að skoða þetta lífeyrissjóðakerfi sem við eigum og velta fyrir okkur framtíðinni í þeim efnum?