143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, eins og ég sagði einmitt við 1. umr. þessa máls tók ég þetta fram, sérstaklega vakti ég athygli á liðum 3 og 4 á bls. 5 þar sem hv. þingmaður fór yfir hérna, að skulda og spara ekki í séreign og skulda ekki og spara ekki.

Það er vissulega hvati til sparnaðar og eins og ég sagði áðan vonast ég til þess að bæði þeir sem hafa séð ástæðu til að gefa ekki upp launatekjur sínar af einhverjum ástæðum eða stunda svarta vinnu, eins og kallað er, eða hafa ekki lagt til nú þegar, hluti af þessum hópi, að hann sjái hvata til þess að gera það.

En ég hefði viljað greina hvers vegna þetta fólk er ekki að spara. Er það vegna þess að það hefur svo lítið á milli handanna? Það á í rauninni bara ekki afgang, sér sér ekki fært þess vegna, þrátt fyrir kannski þetta skattleysi sem fylgir þessari aðgerð og svo auðvitað, þetta er stuttur tími, þetta er svo sem ekki langur tími sem þessi leið gefst. Þess vegna má nú tala um jafnræði til langs tíma litið að eldri börnin mín til dæmis geta hugsanlega gert það en ekki það yngsta. Það stendur því ekki öllum það sama til boða. Auðvitað er það svo á hverjum tíma vissulega, það er verið að reyna að bregðast við aðstæðum.

Ég held að það þurfi að leita skýringa, alveg eins og ég hefði viljað sjá leitað skýringa og greina hópinn betur sem að baki stendur sem við teljum að hefði fyrst og fremst átt að fá aðstoð núna sem ekki var hægt að klára á síðasta kjörtímabili, var ekki hægt að veita úrræðið fremur en að gera það heilt yfir. Hið sama tel ég vera hér, ég hefði viljað greina þetta betur.