143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir mjög fína ræðu eins og jafnan. Við áttum orðastað í málinu í gær og hélt hv. þingmaður þá mjög fína ræðu. Það hefur komið fram að það hefur átt sér stað mjög góð umræða um málið og mjög vönduð og ígrunduð og ég vil taka undir það.

Hv. þingmaður kom inn á sjónarmið eldri borgara og vissulega komu fulltrúar Landssambands eldri borgara fyrir nefndina og voru með efnislega mjög fín sjónarmið. Ég get alveg viðurkennt að það er erfitt að þurfa stundum að taka hamlandi ákvarðanir eins og með þennan hóp en það kemur ágætlega fram, trúi ég, í meirihlutaálitinu að eldri borgarar hafa verið að taka út séreignarsparnað frá hruni eins og aðrir og borga af því fullan skatt. Það er ákveðið jafnræðissjónarmið sem er þar og svo er þessum úrræðum beinlínis beint að þeim sem eru á vinnumarkaði. Þetta eru kannski þau rök sem lágu að baki því að opna ekki á þennan möguleika, hvað sem verður svo um framhaldið.

Ég hef ekki neina sérstaka spurningu. Ég var með spurningar í gær í umræðunni til þingmannsins, það er ekki nema hann vilji tjá sig um þetta.