143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og ekki síst síðustu orð hans áðan. Ég tel og vil árétta að mér finnst að þau sjónarmið sem hafa komið hér upp og verið ítrekuð og liggja út af sig fyrir í umsögnum séu eitthvað sem nefndin gæti skoðað stuttlega á milli 2. og 3. umr., hvort þarna sé eitthvað hægt að bæta úr eða a.m.k. að menn setji sér markmið í því efni.

Í umræðunni hefur komið fram sjónarmið um að mikilvægt sé að efla sparnað, það sé jákvætt að hægt sé að draga úr skuldsetningu með því að nýta hugsanlegan sparnað sinn til að greiða inn á höfuðstól lána og ég er sammála því markmiði. Ég tel að það sé jákvætt í sjálfu sér. En þá hlýtur maður líka að velta fyrir sér: Ef það er almenn skoðun, ætti þá eitthvað að vera í vegi fyrir því að menn geti nýtt meira af sparnaði sínum ef hann er til staðar til að greiða meira niður af höfuðstól lána og hraðar ef þeir svo kjósa án þess til dæmis að lenda í því að borga uppgreiðslugjöld, því að það er hindrun? Það er hindrun fyrir því að menn taki sparnað sinn til að greiða niður höfuðstólinn ef þeir þurfa að greiða uppreiðslugjöld, ávöxtunin getur þar með verið farin. Ég tel að það séu svona hlutir sem menn ættu að skoða aðeins nánar. Ég tel að sjálfsögðu að eftirsóknarvert sé að draga úr skuldsetningu og ég fór yfir það í ræðu í gær að ég tel að verðtryggingin sé ein af stóru ástæðum þess að skuldsetning íslenskra heimila er mikil. Ég tel að hún eigi mikla sök á því, verðtryggingin um þriggja áratuga skeið eða meira (Forseti hringir.) og vegna þess hvernig hún er útfærð. Ég hef ekki tíma til að fara í það á nýjan leik en vísa í fyrri ræðu mína í gær í því efni.