143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það verður ágætt að fá að heyra afstöðu hv. þingmanns hér í seinna andsvari. Hann ræddi um þá sem þegar hafa tekið út séreignarsparnaðinn sinn og hafa þá greitt af honum fullan tekjuskatt eins og til stóð. Kerfið var þannig hugsað, fólki var heimilað að taka út fyrr, allir þeir sem hafa safnað í séreignarsparnað og eru orðnir sextugur geta tekið þennan sparnað sinn út og nýtt hann eins og þeir vilja hverju sinni.

Hv. þingmaður talaði um að þeir sem enn hefðu verið á vinnumarkaði milli áranna 2008 og 2009 og hefðu safnað í séreignarsparnað ættu hugsanlega að geta tekið út samsvarandi því sem þeir lögðu þá inn í þessum aðgerðum og þá með skattfrelsi. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þar værum við að fara inn á mjög varhugaverða braut ef við ætluðum að heimila að úrræði eins og verið er að fara í nú, skattfrelsi, ætti að geta verið afturvirkt og hvaða áhrif það gæti þá haft almennt á ýmislegt annað sem við erum að fara í sem tengist skuldugum heimilum og þeim sem eru með verðtryggð fasteignalán.

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann út í þá milljarða sem þegar hafa farið í skuldaleiðréttingu, að því er varðar gengistryggðu lánin, sem að mig minnir eru 108 milljarðar frekar en 116 og í 110%-leiðinni eru það í kringum 80 milljarðar, hvort það hafi verið kortlagt til hvaða tekjuhópa þær niðurgreiðslur fóru.