143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lenti á vitlausum stað í umsögn Alþýðusambandsins sem ég ætlaði að vísa í hér áðan en er kominn á réttan stað núna. Hv. þingmaður spurði um þetta með séreignarsparnaðinn og hvernig það gæti staðist það sem fullyrt er í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar hér að lútandi. En í umsögn Alþýðusambandsins segir, með leyfi forseta:

„Þessi aðgerð veikir verulega það sem oft er nefnt þriðja stoð lífeyrisskerfisins þ.e. séreignarsparnaðarkerfið. Í nýju riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika kemur fram að frá hruni hafi 93,1 milljarður verið tekinn út úr séreignarsparnaðarkerfinu. Verði þetta frumvarp að lögum þá munu allt að 74 milljarðar verða teknir út úr kerfinu til viðbótar. Snemmbær úttekt séreignarsparnaðar í kjölfar hrunsins mun því veikja kerfið um tæpa 170 milljarða. Þetta er hátt hlutfall af séreignarlífeyrissparnaðarkerfinu þegar haft er í huga að í lok febrúar 2014 var hrein eign til greiðslu lífeyris 258,4 milljarðar. Afleiðingarnar verða aukið álag á velferðarkerfi framtíðarinnar og þar með á skattgreiðendur framtíðarinnar. Þá er vert að hafa í huga að þegar samið var um séreignarlífeyrissparnaðarkerfið í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði var það m.a. gert með þeim rökum að því væri ætlað að gera fólki á almennum vinnumarkaði kleift að flýta starfslokum sínum og hverfa af vinnumarkaði fyrir 67 ára aldur líkt og opinberir starfsmenn geta gert. Veiking á þessari þriðju stoð lífeyriskerfisins eykur því enn á þann mikla mun sem er á kjörum þeirra sem annars vegar greiða í almenna lífeyrissjóði og hinna sem greiða í opinbera sjóði.“

Það er á grundvelli þessara viðhorfa og sjónarmiða sem þetta viðhorf kemur fram í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Aftur að því sem hv. þingmaður spurði einnig um, um afturvirkt skattfrelsi og jafnræðisregluna. Það sem ég var fyrst og fremst að tala um í því efni var að þau rök hafi verið uppi í þessari umræðu að ákveðin jafnræðissjónarmið lægju að baki því að ekki væri komið til móts við þau sjónarmið sem Landssamband eldri borgara hefur sett fram í umsögn sinni. Það sem ég var einfaldlega að benda á var að jafnræði getur verið víða í þessari umræðu og það getur náð til fleiri þátta. Það var fyrst og fremst það sem ég var að vísa til að ég teldi að menn ættu að minnsta kosti að skoða það og velta því fyrir sér.