143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:40]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Mig langar svolítið að skipta ræðunni í tvennt. Hv. þingmaður talaði mikið um leigumarkaðinn og ég tek undir margt af því sem hún sagði, m.a. að leiguverðið væri oft og tíðum fáránlegt. Við höfum til dæmis heyrt að leiguverð á háskólasvæðinu sé frá 100 þús. kr. jafnvel upp í 200 þús. kr. fyrir litlar íbúðir. Hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir setti af stað vinnu í þessu efni og þótt sú vinna hafi byrjað seint þá vildum við vinna þetta rosalega vel og leituðum til margra aðila til þess að geta komið verkefninu í framkvæmd þegar þar að kæmi í staðinn fyrir að eiga þá enn meiri vinnu eftir ef við hefðum bara kastað fram einhverjum hugmyndum í upphafi. Varðandi heildarsýnina þá þurfum við líka að horfa á þetta samhliða því sem við ræðum hérna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún finni fyrir þessari samfélagslegu samþykkt, að við sættum okkur kannski líka við að áhrifaþættir eins og bara staða húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu geti verið breytileg til dæmis út af einhverri stofnun, hvort samfélagið í heild þurfi ekki að standa saman í því að samþykkja ekki til dæmis að fólk sé spurt að því hvað það fái í húsaleigubætur áður en leiga er ákveðin.

Síðan ætla ég að koma hér á eftir og ræða betur það sem við eigum að vera að ræða.