143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér í aðra ræðu mína í þessu brýna hagsmunamáli. Við fjöllum hér um stóra kosningaloforðið, heimsmetið eins og það hét á einhverjum tímapunkti, sem hefur nú reyndar skroppið saman. Heimsmetið sem átti að fjármagna með einhverjum klókindum af hrægömmum er orðið að bankaskatti og beinum kostnaði ríkissjóðs.

Að sjálfsögðu er gott að geta verið í hlutverki þess sem léttir skuldabyrði af íslenskum heimilum, ekki veitir af. En við vitum líka, þegar rýnt er í tölur og greiningar, að þeir sem urðu fyrir alvarlegu tjóni vegna verðbólgu í kringum hrunið eru helst þeir sem fjárfestu í húsnæði á tímabilinu 2005–2009 og leigjendur, því að leiga hefur hækkað umfram launavísitölu og þar er aldeilis íþyngjandi kostnaður. Þess vegna ætla ég í þessum skemmtilegheitum öllum að vera í hlutverki þeirrar sem bendir á alvarlega ágalla þessa máls.

Allir gera sér grein fyrir því að mikil þörf er á að ganga lengra fyrir ákveðna hópa, þ.e. hópinn sem keypti húsnæði á tímabilinu 2005–2009, sérstaklega þá sem keyptu fyrstu íbúð sína. Og það er full ástæða til að hækka húsaleigubætur, auka framboð af leiguhúsnæði og búa til húsnæðisbætur þannig að fólki sé ekki mismunað eftir búsetuformi.

Markmið frumvarpsins sem hér um ræðir og varðar séreignarsparnaðinn er eftirfarandi, eins og minni hlutinn segir í áliti sínu, með leyfi forseta:

„Frumvarpinu er ætlað að létta skattbyrði tiltekins hóps skattgreiðenda. Til þess að fjármagna afléttinguna verður skattbyrðin flutt til og lögð á skattgreiðendur framtíðarinnar.“

Það er auðvitað langur tími sem er undir í þessari tilfærslu en umtalsverður kostnaður mun falla á skattgreiðendur á næstu árum. Ég verð að segja það að þegar ég fer í gegnum álit meiri hlutans er mér ekki alveg ljóst hver þessi kostnaður er. Og það er alveg augljóst að meiri hlutanum er heldur ekki ljóst hver þessi kostnaður verður. Beinn kostnaður umfram bankaskattinn hleypur að því mér sýnist á stærðargráðunum 35 milljarðar til 64 milljarðar. Það er kostnaður sem ríkissjóður mun bera, sveitarfélögin og Íbúðalánasjóður. Og hverjir eiga að standa undir þeim kostnaði? Jú, íslensk heimili og íslensk fyrirtæki.

Ég las umsögn Reykjavíkurborgar sem er höfuðborg landsins, stærsta sveitarfélagið. Ég er einn 22 þingmanna þess sveitarfélags hér inni og mér er nokkuð órótt þegar ég les þessa umsögn. Þar kemur fram að Reykjavíkurborg áætlar kostnaðinn, sem tekið er undir í meirihlutaálitinu, vera um 1,9 milljarða fyrir Reykjavíkurborg á yfirstandandi ári og næstu þremur árum, og með leiðréttingarfrumvarpinu er hann 2,1 milljarður. Nú ber að geta þess að þarna er tekið tillit til bankaskattsins sem kemur að einhverju leyti í gegnum jöfnunarsjóð, en þess ber einnig að geta að Reykjavíkurborg sem er með umtalsverða félagslega byrði fær ekki fjármuni vegna hennar í gegnum jöfnunarsjóð. Þetta skapar auknar álögur á okkur borgarbúa til að fjármagna það að hátekjufólk geti greitt niður lánin sín með sérstökum skattafslætti í boði meiri hlutans. Þeir sem munu bera þennan kostnað í Reykjavíkurborg eru útsvarsgreiðendur í gegnum hærri álögur og síðan hlýtur niðurskurður að verða óhjákvæmilegur. Þar eru stærstu útgjaldaliðirnir skóla- og leikskólamál sem og þjónusta við fatlað fólk og félagsþjónusta.

Reykjavíkurborg furðar sig á því að gefið sé í skyn að nettóáhrifin fyrir sveitarfélögin verði umtalsvert minni því að fram muni koma tekjur í auknum þjónustusköttum og fasteignagjöldum. Reykjavíkurborg — og þar á bæ kann nú fólk aldeilis að reikna — getur ekki séð til hvers er vísað þegar talað er um þjónustuskatta, hvaða skattar það séu og hefur áhyggjur af þessu. Og varðandi fasteignagjöldin er bent á í umsögninni að ógjörningur sé að sjá fyrir hvaða áhrif þessar aðgerðir hafa. Vísað er til tillagna um að banna verðtryggð lán til lengri tíma en 25 ára og bent á að spáð hafi verið að slíkt mundi lækka fasteignaverð og þar með lækka fasteignagjöld, ef ekki kæmi til hækkun skattprósentu á fasteignagjöld.

Mér finnst nauðsynlegt, herra forseti, að draga þetta fram í umræðunni því að við höfum mörg hér lýst áhyggjum af því að það séu hópar í þessu samfélagi sem njóti ekki þessara aðgerða, en þeir nýta sér svo sannarlega margir hverjir þjónustu á vegum sveitarfélaga.

Það er skrýtið að vera í hlutverki gleðispillis því að ég veit, eins og ég vil endurtaka, að hluti af þessum aðgerðum er mikilvægur og nauðsynlegur. En hluti þessara aðgerða er þannig að þeir njóta sem kannski ekki þurfa á sérstakri fyrirgreiðslu að halda á kostnað þeirra sem reiða sig á kerfið; þeirra sem reiða sig á framfærslu í gegnum opinberu tilfærslukerfin okkar, eins og lífeyrisþegar og atvinnulausir, og þeirra sem þurfa á mikilli opinberri þjónustu að halda í heilbrigðiskerfinu og í félagslega kerfinu. Og það er alvörumál þegar við erum með svona tilfærslur á milli hópa, þegar við setjum eiginlega á þá sem minnst hafa byrðarnar af þeim sem mest hafa. Og við vitum ekki einu sinni hvort kostnaðurinn verður 35 eða 65 milljarðar.

Þetta eru gígantískir fjármunir og það er skrýtið að fólkið sem stóð hér fyrir nokkrum mánuðum og talaði um það eins og það væru fréttir að ná þyrfti niður hallanum á ríkissjóði skuli síðan koma með tillögur sem þessar. Það virðist ekki trufla það eina einustu mínútu að það verði eitthvert óþægilegt verkefni sem þurfi að takast á við til þess að eiga fyrir þessu öllu saman, fyrir utan að bæta upp þeim hópum sem ekkert fá í þessum aðgerðum. Hvort það verður í formi skattahækkana (Forseti hringir.) eða áframhaldandi niðurskurðar fáum við að sjá í haust.