143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svar mitt við fyrirspurn hv. þingmanns er: Já. Eins og ég rakti í ræðu minni er það gleðiefni þegar hægt er að koma til móts við skuldug heimili. Það er mikilvægt að mæta því. Á Íslandi eru enn heimili sem þarf að lækka skuldir hjá, en ég ákvað að fara í hlutverk gleðispillisins og lýsa áhyggjum einmitt af þeim kostnaði, ekki bara sem fellur á sveitarfélagið mitt, Reykjavíkurborg, og er á næstu þremur, fjórum árum rúmir 2 milljarðar, fyrirséður beinn kostnaður, heldur þeim 35–65 ef ég hef lesið nefndarálitið rétt, maður þarf að liggja svolítið yfir því til að reyna að átta sig á því, ófjármagnaður kostnaður sem lendir á ríkissjóði. Ég vek athygli á því að kostnaðurinn sem fellur til vegna Íbúðalánasjóðs kann að verða á fjórum árum 24 milljarðar. Eitthvað af því fer í gegnum bankaskattinn og svo eru frátalin almenn áhrif á sveitarfélögin og ríkissjóð.

Þá vantar algjörlega í þessa umræðu upplýsingar um hvernig eigi að fjármagna þetta. Á að gera það með skattahækkunum? Á að gera það með gjaldtöku á sjúklingum, enn frekari, sem er nú hér á landi með því mesta sem gerist í Evrópu, eða á að draga úr opinberri þjónustu? Þá eru náttúrlega heilbrigðis- og menntakerfin stærstu kerfin.

Þessa umræðu hefði ég viljað fá hér (Forseti hringir.) og harma það að hún fer fyrst fram í haust þegar þessi frumvörp verða (Forseti hringir.) væntanlega orðin að lögum.