143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nokkrum sinnum í dag hefur verið rætt um málþóf og aðra slíka þætti. Við höfum af því tilefni kannað aðeins ýmislegt í gögnum þingsins. Vegna þess að framsögumaður þessa ágæta máls leyfði sér að hafa uppi einhver slík orð á fésbókarsíðu sinni, held ég, er rétt að vekja athygli á því að hv. þm. Willum Þór Þórsson hefur talað í tæpa eina klukkustund sjálfur af þeim átta klukkustundum sem umfjöllunin hefur farið fram. Ég held að það sé ekki tímabært að þingmaðurinn tali um málþóf fyrr en umfjöllunin hefur náð þeim 63 klukkustundum sem jafngilda þeim tíma sem hann hefur sjálfur talað sinnum fjöldi þingmanna.

Sömuleiðis liggur fyrir að á litlum fimm vetrum hefur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talað í tæplega 100 klukkustundir. Það er umtalsvert lengri tími en sumir þingmenn sem setið hafa á Alþingi í á annan áratug hafa talað. Ég hvet hv. þingmann (Forseti hringir.) þess vegna til að fara sparlega í stóryrðin meðan fólk hefur þó enn verið á Alþingi talsvert fámálla en þingmaðurinn sjálfur.