143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Í fyrsta lagi aðeins um sparnaðinn og skattalega hvata í þeim efnum þá má nú á milli vera hvort það sé eitthvað ýtt undir eða hlúð að slíkum húsnæðissparnaði og því að það sé 40% meðgjöf. Við erum að tala um það hér, það er um 40% meðgjöf í þessu séreignarsparnaðarfyrirkomulagi í formi tapaðra skatttekna ríkis og sveitarfélaga, tekjur sem eru allt að 1 millj. kr. á mánuði hjá fjölskyldu, hjá hjónum og samsköttuðum aðilum, eftir breytingartillögur meiri hlutans sem rýmka úrræðin enn frekar.

Þótt maður hafi oft tekið undir að það mætti skoða einhvers konar hagstætt sparnaðarform, t.d. fyrir ungt fólk, þá hef ég aldrei í mínum villtustu draumum látið mér detta í hug að það yrði 40% meðgjöf frá ríki og sveitarfélögum upp að svona háum fjárhæðarmörkum. Fyrir utan það er þetta stiglækkandi skattur, stighækkandi tekjuskattur snýst við þegar hann er notaður svona og verður stiglækkandi, ívilnar mönnum meir eftir því sem þeir hafa hærri tekjur og geta sparað meira.

Varðandi ríkisfjármál og efnahagsáhrifin þá hefðum við í raun og veru þurft rækilega umræðu hér um ríkisfjármálaáætlun til næstu ára á grundvelli þessara mála. Þetta eru svo stórar tölur. Við tökumst hér á um hundruð milljóna eða kannski fáeina milljarða við fjárlagaafgreiðslu en við erum væntanlega að tala um reikning öfugum megin við 200 milljarða kr. Ég komst að þeirri niðurstöðu í nefndaráliti mínu að kostnaðurinn áður en meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar ákvað að rýmka úrræðin gæti lagst upp í 188 milljarða. Ég tel að það hafi verið sæmilega vel rökstutt. Með þeirri rýmkun gætum við verið farin að tala um reikning sem er kominn öfugum megin við 200 milljarða (Forseti hringir.) í töpuðum skatttekjum á næstu (Forseti hringir.) þremur árum og til framtíðar.