143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er þetta allt svo skemmtilegt hjá stjórnarflokkunum og það er svo leiðinlegt að vera ekki jafn skemmtileg. En mér fannst það gott, sem hv. þingmaður benti á, að fljótlega verðum við með um 25% landsmanna á eftirlaunaaldri. Þá verðum við, ef þetta frumvarp verður að lögum, líka búin að eyða fyrir fram hluta af þeim skatttekjum, sem þessi 25% hefðu verið að greiða í ríkissjóð, til að standa undir aukinni heilbrigðisþjónustu, sem óhjákvæmilega fylgir fjölgun eldri borgara.

Bent er á það í frumvarpinu, sem ég held að sé rétt, að það sé jákvætt að draga aðeins úr þrýstingi, því að lífeyrissjóðirnir eru stórir innan hagkerfisins. Ég vil aðeins heyra afstöðu þingmannsins til þess, hvort hann telji þetta til þess fallið að (Forseti hringir.) auðvelda lífeyrissjóðunum að finna fjármögnun við hæfi (Forseti hringir.) þegar dregur aðeins úr umfangi þess fjár sem inn í þá safnast nú á (Forseti hringir.) næstu árum.