143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara aðeins að árétta hvað það skiptir miklu fyrir okkur að vera í þeirri stöðu sem við erum. Við erum númer eitt til tvö meðal þjóða heimsins í því að hafa byggt upp sterkt fjármagnað lífeyriskerfi. Við eigum um 135 til 140% af vergri landsframleiðslu í hreinni eign lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris, það eru Hollendingar og Svisslendingar sem eru svona nálægt okkur í flokki. Og við erum til viðbótar enn sem komið er tiltölulega ung þjóð þannig að staða Íslands að þessu leyti er mjög sterk. Þetta hef ég nú stundum notað í samskiptum við erlenda aðila þegar ég hef verið að tíunda bjartar horfur Íslands til lengri tíma litið, ekki að vísu undir núverandi ríkisstjórn en að því slepptu svona almennt séð.

Sumar þjóðirnar sem glíma við hvað mesta erfiðleika við Miðjarðarhafið, þær eru eldri, jafnvel umtalsvert eldri en Íslendingar og þær eiga núll krónur til greiðslu lífeyris. Þær eru með hreint gegnumstreymiskerfi og eru þegar komnar í mikinn vanda, hvað þá það sem fram undan blasir við. Ég hika því ekki við að standa vörð um þetta kerfi (Forseti hringir.) og er stoltur af því meðal annars að hafa varist árásunum sem á það voru gerðar (Forseti hringir.) hér í kreppunni þegar menn ætluðu að seilast inn í (Forseti hringir.) framtíðartekjur lífeyrissjóðanna eins og kunnugt er.