143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt atriði hér sem mig langar að ræða við hv. þingmann, vegna þess að hann hefur verið í nefndinni og í þessari vinnu allri saman. Það varðar Íbúðalánasjóð og áhrifin á hann, vegna þess að mér finnst það ekki koma nægjanlega fram, hvorki í greinargerð frumvarpsins, umsögn fjármálaráðuneytisins né heldur í meirihlutaáliti nefndarinnar hvaða afleiðingar aðgerðirnar munu hafa, það segir bara að það ríki veruleg óvissa um fjárhæðir í því sambandi. Ég velti fyrir mér hvaða áhrif þetta muni hafa á Íbúðalánasjóð. Rætt er um það í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið sjálft og áfram í meirihlutaáliti nefndarinnar að það sé svona lauslegt mat á hinu og þessu. Talað er um 5 milljarða á fjórum árum o.s.frv.

Hversu djúpt var farið í skoðun á þessu innan nefndarinnar? Fengu menn eitthvert minnisblað um það hvaða áhrif þetta hefði? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að við vitum að 110%-leiðin gagnaðist ekki eins vel þeim sem eru hjá Íbúðalánasjóði. Gera má ráð fyrir því að mjög margir sem þar eru muni nýta sér þetta úrræði og sömuleiðis það sem við munum ræða á eftir þessu máli, þ.e. skuldaniðurfellingarnar. Þær munu án efa koma mikið til Íbúðalánasjóðs. Var gert eitthvert heildstætt mat á þessu, þ.e. hversu mikinn hluta af þessum fjármunum menn telja að muni fara til Íbúðalánasjóðs, til þeirra sem eru hjá Íbúðalánasjóði, og hvaða áhrif það mun þá hafa á sjóðinn og fjárhag hans og hvað í heildina ríkissjóður mun raunverulega greiða á endanum bara vegna Íbúðalánasjóðs?(Forseti hringir.)

Það er óljóst og mér finnst óþægilegt að í frumvarpinu sem við munum ræða á eftir þá nota menn sama orðalag, að það sé fullkomlega óljóst hversu mikill sá kostnaður verði í raun og veru.