143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti ekki verið meira sammála. Mér finnst það eiginlega alveg stórfurðulegt að það skuli vera meiningin að bjóða upp á afgreiðslu á þessum málum án þess að fyrir liggi heildstætt mat á heildaráhrifunum fyrir ríki og sveitarfélög og án þess að slíkt mat, ég tala nú ekki um núna í ljósi breytingartillagna, hafi fengið skoðun hjá einhverjum utanaðkomandi aðilum. Það liggur ekki fyrir nema þá það sem við erum að reyna að gera og ég geri til dæmis í nefndaráliti mínu sem minnihlutamaður. Það er ekki í greinargerðum stjórnarfrumvarpanna, og kostnaðarmati á hvoru máli um sig, sem þar er að finna, er ábótavant, það hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið nú viðurkennt með nýjum minnisblöðum til okkar, og það er hvergi tekið saman á einum stað þannig að það sé aðgengilegt fyrir menn og spurt hversu stórt það er.

Ég er að reyna að sjá það og kemst að þeirri niðurstöðu að þetta gætu orðið 188 milljarðar fyrir stækkun séreignarsparnaðarins. Þar tel ég með áætlaða 15 milljarða í kostnað í almannatryggingakerfinu í (Forseti hringir.) framtíðinni vegna minni útgreiðslna séreignarsparnaðar og 5 milljarða, sem er mjög vægt reiknað, vegna líklega hærri vaxtagreiðslna ríkisins á komandi missirum.