143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:12]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að snúa við spurningunum og setja mig í að svara spurningum. Það er maklegt að velta fyrir sér hver kostnaðurinn verður fyrir Íbúðalánasjóð. Í nefndinni kölluðum við eftir upplýsingum um það, að sjálfsögðu, og mörgum öðrum gögnum og fengum ágætisupplýsingar, en það er alveg rétt sem fram hefur komið að ekki er hægt að segja fyrir með vissu hversu margir munu nýta sér úrræðið, hversu margir munu greiða upp lánin við Íbúðalánasjóð og þar fram eftir götunum.

Þær forsendur sem Íbúðalánasjóður gefur sér í áætlun sinni, sem er virkilega með hærri efri mörk en sú sem kemur frá ráðuneytinu, það eru 5,4 milljarðar versus 24 ef ég man rétt, þar er ansi svört spá um það t.d. að ekki verði hægt að bregðast við með nokkru móti og í mjög langan tíma. Hins vegar held ég að alltaf sé hægt að bregðast við, til að mynda þarf ekki að gefa sér 1,5% vexti á laust fé Íbúðalánasjóðs á meðan ríkissjóður sjálfur er að taka lán á miklu hærri vöxtum, það er augljóst. Ég held að það sé ekki tilefni til að vera jafn svartsýnn og í þeirri spá.