143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sá þessi mál þá var annars vegar um að ræða kosningaloforð Framsóknarflokksins, um beinar almennar skuldaniðurfellingar, sem fjármagna átti með fé sem kæmi í því svigrúmi sem skapast átti í samningum við kröfuhafa.

Hins vegar vorum við með tillögur Sjálfstæðisflokksins. Þær voru á þá leið að þeir tekjuhæstu gætu nýtt sparnaðinn sinn og fengið skattafslátt, og þetta var gagnrýnt í kosningabaráttunni. En nú hafa menn ákveðið að búa til einn pakka úr annars vegar skuldaniðurfellingum og hins vegar tillögum Sjálfstæðisflokksins, nema skuldaniðurfellingarnar sjálfar eru í algerri mýflugumynd og fjármagnaðar af ríkinu.

Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn er að ná sínu fram svona mestmegnis en Framsóknarflokkurinn stendur ekki að neinu leyti við það sem hann lofaði, þ.e. um fjármuni sem kæmu frá kröfuhöfum, eða hrægömmum, til íslenskra heimila í frekar stórum stíl. Í staðinn eru að fæðast 72 milljarðar sem koma til heimilanna í gegnum þessar niðurfærslur og þeir koma ekki frá neinum hrægömmum, þeir koma í gegnum skattkerfið. Þetta er staðreynd málsins.

Svona eru efndirnar á þeim bænum. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn geti að ákveðnu leyti hrósað sigri, hann vildi fara þessa leið og kynnti hana hvað varðar það frumvarp sem við ræðum hér. Framsóknarflokkurinn skilar hins vegar alls ekki því sem hann ætlaði að skila. Ég tel þar fyrir utan að Framsóknarflokkurinn hafi með málflutningi sínum í kosningabaráttunni stórskaðað samningsstöðu Íslands hvað varðar uppgjör þrotabúa gömlu bankanna. En það er kannski saga sem við ræðum síðar.