143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Ég held að það sé stór hópur ungs fólks sem sé að verða eftir. Við erum öll sammála um að það er mjög erfitt að safna sér fjármunum í dag á Íslandi, hvað þá til að ná upp í það að eiga fyrir útborgun í íbúð, það er mjög erfitt.

Ekki er síður erfitt að vera á leigumarkaði vegna þess að leiguverð er gríðarlega hátt. Segjum að viðkomandi sé líka í námi. Námsmaður í leiguíbúð getur ekki með nokkru móti lagt til hliðar fjármuni þó að hann gjarnan vildi það vegna þess að tekjur hans eru svo lágar og rýmið sem hann hefur er ekkert; honum er svo þröngt sniðinn stakkurinn. Þetta þýðir að þarna er stór hópur sem fær ekki neitt út úr aðgerðum núna, fær ekki neinn stuðning frá hinu opinbera. Þessi hópur mun eiga mjög erfitt með að leggja fyrir á næstu árum af því að hann er fastur í mjög hárri leigu og þessi hópur á líka að borga reikninginn af þessari niðurfærslu. Mér finnst þetta asskoti hart fyrir þá kynslóð sem nú stundar nám til dæmis.