143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var meining ríkisstjórnarflokkanna, eins og þeir kynntu í aðdraganda kosninga, að taka ætti fjármuni í þessu skyni, verulegar fjárhæðir, mun hærri fjárhæðir en hér eru undir, af svokölluðum hrægömmum. Það mundi skapast svigrúm í samningum við kröfuhafa.

Þar að auki hljóta menn að velta fyrir sér, af því að þingmaðurinn nefndi líka framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga: Hverjir munu bera þann kostnað? Auðvitað lendir hann einhvers staðar. Hann lendir í einhverju formi annaðhvort í því að dregið verður úr þjónustu til framtíðar við komandi kynslóðir eða að komandi kynslóðir munu þurfa að greiða hærri skatta til þess að borga fyrir sambærilega þjónustu eða hærri þjónustugjöld eða þá að þessir opinberu aðilar, ríki og sveitarfélög, verða að auka skuldsetningu sína. Það er heildarmyndin sem við höfum gagnrýnt að liggi ekki fyrir í málinu og stjórnarflokkarnir hafi algjörlega horft fram hjá. Það varðar líka hagsmuni fólksins í landinu, mikil ósköp, og ekki síst þeirra sem hafa minnst milli handanna og þurfa að reiða sig á þjónustu sveitarfélaganna svo dæmi sé tekið.

Í mínum huga, þó að vissulega geti margir nýtt sér þessi úrræði og því sé ekki mótmælt hér, er dálítið eins og þetta séu almennar aðgerðir fyrir sértækan hóp og það sé ekki verið að mæta þeim sem helst þurfa á því að halda. Það hefur því miður einkennt allt of mikið þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hefur gripið til frá því að hún tók við, ekki bara í skuldamálum heldur, eins og ég nefndi hér áðan, í veiðigjaldamálum og skattamálum. Áherslan hefur verið á þá hópa sem hafa besta afkomu og eru í bestum færum og bestum efnum en ekki á (Forseti hringir.) þá sem minna hafa á milli handanna.