143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir andsvarið. Við deilum um margt skoðunum í þessum efnum. Vissulega hafa slíkar aðgerðir áhrif á ríki og sveitarfélög. Það hefur komið mjög vel fram í umræðunni, m.a. í framsögu minni. Þeir fjölmörgu fulltrúar sem komu fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd ræddu þetta og fulltrúar sveitarfélaga.

Umsvifin munu að einhverju marki aukast. Við fáum minna skuldsettar fjölskyldur sem eru jú íbúar sveitarfélaganna, sem eru þá betur í stakk búnar til að standa skil á gjöldum í framtíðinni. Þetta hefur jafnframt þau áhrif að fleiri geta nýtt sér úrræði til húsnæðissparnaðar og öflunar húsnæðis. Það eru þá fasteignaskattar til framtíðar fyrir sveitarfélögin. Við horfum til langs tíma, 40 ára, sem þetta dreifist yfir, þ.e. þessar fórnuðu tekjur, eins og hefur komið fram í umræðunni. Þetta minnkar að einhverju leyti pressuna á félagslegu úrræðin fyrir sveitarfélögin þannig að það er hægt að skoða þetta í mjög víðu samhengi.

Eftir stendur að verið er að aðstoða fjölskyldur til þess að ná niður húsnæðisskuldum og það ber að ítreka að þessi úrræði ásamt úrræðum um skuldaleiðréttingu geta náð til 100 þús. heimila.