143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru búnar að vera góðar og efnismiklar umræður um þetta mál. Sumum hefur þótt of mikið talað, en ég held að það sé nægur efniviður í umræðu áfram um þetta mál vegna þess að það er stórt og snertir ekki bara okkur sem nú erum á Alþingi eða þær kynslóðir sem nú eiga í hlut og þessar aðgerðir munu nýtast eða ekki nýtast. Þetta skiptir framtíðina máli, börn okkar og barnabörn, og það er ástæða til að ræða þessi mál svo menn gangi ekki með bundið fyrir augun inn í framtíðina án þess að eiga von á þeim afleiðingum sem þessar aðgerðir geta haft á getu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að standa undir skuldbindingum sínum og uppbyggingu samfélagsins í framtíðinni.

Ég vil í lokin aðeins draga fram mynd sem hefur kannski ekki verið í umræðunni þessa tvo daga, í fyrsta lagi hvernig þessi skattafsláttur nýtist skattgreiðendum vítt og breitt um landsbyggðina sem horfa upp á að það sé verið að veita mikla skattafslætti til að greiða inn á höfuðstól lána í gegnum séreignarsparnað.

Við vitum að fyrir hrun varð engin fasteignabóla úti á landi, sem betur fer segja sjálfsagt margir. Mörgum íbúum landsbyggðarinnar gafst ekki sami kostur á að skuldsetja sig vegna íbúðarhúsnæðis og gerðist árin fyrir hrun þegar ótakmarkað lánsfjármagn var í boði og því frekar ýtt að fólki að það þyrfti að kaupa sér dýrari eignir vegna þess að framboð á fjármagni var það mikið að bankarnir biðu eftir því að koma fjármunum sínum í vinnu til að græða vexti og halda áfram að vera í útrás. Sá veruleiki var ekki úti á landsbyggðinni og eftir á að hyggja get ég að mörgu leyti tekið undir orðalagið „sem betur fer“. Þegar menn fara út í þessar að mínu mati ómarkvissu aðgerðir þyrfti að greina miklu betur þá hópa sem virkilega þurfa á stuðningi að halda. Ég spyr: Hvernig kemur þetta við fólk eftir því hvar það er statt? Það fólk sem er ekki mjög skuldsett getur ekki nýtt sér þetta með sama hætti og það fólk á landsbyggðinni sem býr á svokölluðum köldum svæðum þar sem markaðsverð íbúða er ekki sambærilegt og á höfuðborgarsvæðinu og eru þar að auki oftar en ekki lágtekjusvæði. Hvers á það fólk að gjalda þegar ríkið ákveður að veita sérstökum hópum gífurlega mikinn skattafslátt í formi þessara aðgerða? Til framtíðar bitnar það alveg jafnt á því fólki þegar minna verður umleikis hjá ríkissjóði til að fara í aðgerðir eins og bættar vegasamgöngur, uppbyggingu heilbrigðiskerfis úti á landi, menntakerfis og þjónustu ýmiss konar sem hefur oft setið á hakanum, jöfnun orkuverðs svo eitthvað sé nefnt.

Allt þetta sem ég held að okkur sé bara hollt að draga upp, þessa stóru mynd af veruleikanum, kemur niður á fólki sem fór ekki endilega óvarlega í húsnæðiskaupum þó að það hafi alls ekki átt við um alla. Í þessum aðgerðum fær tekjuhæsti hópurinn, sá sem á miklar og dýrar eignir og hefur greiðslugetu til að standa undir afborgunum, rauðan dregil inn í framtíðina til að fá skattafslátt til næstu þriggja ára ef hann leggur inn á séreignarsparnað til að greiða niður húsnæðislánin sín.

Mér finnst þetta óréttlátt og mér finnst eiginlega eins og verið sé að löðrunga fólk tvisvar. Það á líka við um láglaunafólk, mér finnst eins og verið sé að löðrunga það fólk því að það er ekki þarna í forgangi. Það hefði þurft að greina miklu betur láglaunafólk og það fólk sem keypti sína fyrstu íbúð á árunum 2004–2008 og mæta því með markvissum aðgerðum, hvort sem væri í formi sérstakra vaxtabóta, barnabóta eða annarra félagslegra aðgerða sem gögnuðust þessu fólki því að þetta fólk er í greiðsluvanda frá mánuði til mánaðar. Það þarf að herða sultarólina síðustu daga hvers mánaðar og það er í óvissu um hvort það ráði við að borga leigu eða afborgun af húsnæði sínu. Það fólk hefur ekkert umleikis, eða borð fyrir báru eins og stundum er sagt, til að leggja til hliðar til að geta nýtt sér það rausnarlega boð ríkissjóðs á kostnað komandi kynslóða sem felst í skattafslættinum.

Á þessum forsendum finnst mér við ekki geta sagt að þessi aðgerð sé til að bjarga heimilunum vegna þess að mörg heimili eru skilin eftir, hvort sem það eru heimili fólks á landsbyggðinni sem sér fram á minni uppbyggingu á sínu svæði vegna tekjumissis sveitarfélaga og ríkissjóðs í framtíðinni eða heimili láglaunafólks sem sér fram á að ríkið hafi ekki fjármuni til að greiða hærri barnabætur, hærri vaxtabætur eða koma að með félagslegum stuðningi. Okkur eru í fersku minni síðustu kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum þegar ríkisvaldið tók ekki undir þá ósk og kröfu stéttarfélaganna að hækka með aðkomu ríkisins að kjarasamningum persónuafslátt sem hefði gagnast þeim lægst launuðu langbest. Það hefði þá verið eitthvert mótvægi við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í að lækka gjöld á þá sem hafa hærri tekjur og fella niður auðlegðarskatt, auk svo margs annars sem menn hafa verið að hygla þeim efnuðu í þjóðfélagi á kostnað hinna verr settu.

Þess vegna get ég því miður ekki sagt að þessi aðgerð gagnist heimilum í landinu. Hún gagnast einstökum heimilum, hún er sértæk og ekki til fyrirmyndar fyrir ríkisstjórnina enda er þessi ríkisstjórn ekki kennd við jafnaðarmennsku og félagshyggju. (Forseti hringir.) Þetta frumvarp sýnir það.