143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Nefndarálitið ásamt breytingartillögu er að finna á þskj. 1069 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir skjalið frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði.

Málið var lagt fram 26. mars og var rætt á Alþingi 7. og 8. apríl. Efnahags- og viðskiptanefnd tók málið til umfjöllunar 9. apríl og fjallaði um það á níu fundum. Á fund nefndarinnar komu 27 gestir og 25 erindi bárust. Einnig var kallað eftir umsögn frá fjárlaganefnd og er hún í fylgiskjali við nefndarálitið. Ég vil þakka gestum nefndarinnar og umsagnaraðilum fyrir þeirra framlag til málsins.

Frumvarpið sem hér um ræðir er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Í ályktun Alþingis frá 28. júní 2013 um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi var ákveðið að settur yrði á fót sérfræðingahópur sem fengi það verkefni að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Sérfræðingahópurinn skilaði af sér tillögum í nóvember 2013 um leiðréttingu höfuðstóls og skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar. Frumvarpið er samið af starfshópi skipuðum af fjármála- og efnahagsráðherra en að undirbúningi frumvarpsins komu fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Landssamtökum lífeyrissjóða auk fulltrúa frá Íbúðalánasjóði og ríkisskattstjóra.

Meiri hlutinn vill þakka þeim sem hafa komið að undirbúningi og gerð þessa frumvarps. Frumvarpið felur í sér vel útfærða lausn á flóknu úrlausnarefni.

Markmið frumvarpsins er að kveða á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar verðtryggðra fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er fjallað um aðdraganda og meginefni þess. Í greinargerðinni er mat á áhrifum skuldalækkunar á efnahag landsins og mismunandi samfélagshópa. Einnig er fjallað um áhrif á Íbúðalánasjóð og stjórnsýsluna.

Meiri hlutinn vekur athygli á að skuldsetning heimila er nú ríflega tvöfalt hærri en hún var fyrir tuttugu árum. Í árslok 2013 voru skuldir heimilanna 108% af vergri landsframleiðslu. Há skuldsetning heimila er talin orsakaþáttur í því hve þjóðarbúið hefur verið lengi að jafna sig í þetta sinn samanborið við fyrri samdráttarskeið.

Í frumvarpinu er mat á áhrifum skuldalækkunar heimila á helstu hagstærðir. Þar er byggt á greiningu ráðgjafarfyrirtækisins Analytica sem unnin var að beiðni sérfræðingahópsins og einnig greiningu sem birtist í Peningamálum Seðlabankans í febrúar 2014. Þjóðhagsleg áhrif eru tiltölulega mild samkvæmt greiningu Analytica, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir nokkru meiri áhrifum. Greiningar af þessu tagi eru að sjálfsögðu óvissu háðar.

Ljóst er að skuldalækkun mun hafa jákvæð tekju- og auðsáhrif á heimilin. Hins vegar er óvissa um hvernig auknar ráðstöfunartekjur heimila muni skiptast milli aukinnar neyslu og sparnaðar eða fjárfestingar og hver áhrifin verða nákvæmlega á hagvöxt og verðbólgu. Stóru alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin virðast ekki hafa talið tilefni til að hafa áhyggjur af neikvæðum aukaverkunum en þrjú þeirra hafa staðfest mat sitt á lánshæfi ríkissjóðs eftir að tilkynnt var um aðgerðirnar. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að ætla að frumvarpið muni hafa verulega neikvæð efnahagsáhrif. Umfang frumvarpsins er innan við 3,2% af fjárlögum hvers árs og geta stjórnvöld gripið til ýmissa mótvægisaðgerða til að milda áhrifin frekar ef þörf krefur.

Í fjárlögum ársins var samþykkt að verja 20 milljörðum kr. í leiðréttinguna á þessu ári, en heildarkostnaður aðgerðarinnar er áætlaður 80 milljarðar kr. á fjórum árum.

Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn meiri hluta fjárlaganefndar, en þar er lögð áhersla á að ekki verði vikið frá þeim markmiðum frumvarpsins að endanleg útgjöld verði ákvörðun Alþingis í fjárlögum hvers árs og með því móti tryggt að jafnvægi verði í gjöldum og tekjum ríkissjóðs vegna aðgerðanna. Þannig gefst Alþingi færi á því að bregðast við ef sýnt þykir að fjárhagsáætlanir gangi ekki eftir og tryggja að aðgerðirnar verði ávallt að fullu fjármagnaðar. Með því móti nást fram jákvæð áhrif aðgerðanna í samræmi við markmið frumvarpanna, samhliða því sem ekki er gefinn afsláttur af sjálfbærni, varfærni og stöðugleika við stjórnun ríkisfjármála.

Talsvert hefur verið rætt um áhrif leiðréttingarinnar á mismunandi samfélagshópa. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að í árslok 2009 voru 74 þúsund heimili skráð fyrir verðtryggðum fasteignalánum. Verði frumvarpið að lögum má ætla að rúmlega níu af hverjum tíu þessara heimila muni njóta höfuðstólslækkunar fasteignalána á grundvelli ákvæða frumvarpsins. Áætlað er að meðalfjárhæð niðurfærslu á hvert heimili nemi rúmlega 1,1 millj. kr. og tæplega helmingur heimila fái niðurfærslu á bilinu 0,5–1,5 millj. kr. Rúmlega helmingur af umfangi leiðréttingarinnar mun renna til heimila með mánaðartekjur undir 660 þús. kr. á mánuði og meira en helmingur leiðréttingarinnar rennur til fjölskyldna með börn undir 18 ára aldri.

Fyrir nefndinni kom fram að tæplega 80% heildarniðurfærslunnar muni renna til heimila þar sem fasteignamat eignar er undir 40 millj. kr. Hlutdeild í heildarniðurfærslu virðist einna mest meðal þeirra heimila sem eiga fasteignir með fasteignamat á milli 10–30 millj. kr.

Þegar tekið er mið af eftirstöðvum fasteignalána í árslok 2009 mun rúmlega helmingur heildarumfangs leiðréttingarinnar renna til heimila með eftirstöðvar undir 20 millj. kr. Virðist hæst hlutfall niðurfærslunnar fara til þeirra sem skulda á bilinu 10–25 millj. kr. vegna íbúðakaupa.

Sé tekið mið af hlutfalli eftirstöðva lána af fasteignamati sést að skuldugri heimili fá að jafnaði hærri niðurfærslu en skuldlítil. Rúmur helmingur rennur til heimila sem skulda meira en 80% af fasteignamati. Tæplega 80% heildarniðurfærslna renna til heimila sem skulda meira en 50% af fasteignamati. Könnun á landfræðilegri skiptingu leiðréttingarinnar gefur til kynna að áætluð hlutdeild landshluta í heildarleiðréttingu fylgir hlutdeild landshluta í eftirstöðvum fasteignalána.

Hvort sem dreifingin er skoðuð eftir tekjum, fasteignamati, eftirstöðvum eða landfræðilega er ljóst að dreifing leiðréttingarinnar er mun betri en haldið hefur verið fram og hún nær til hátt í 70 þúsund heimila. Sama verður varla sagt um 110%-leið fyrri ríkisstjórnar en hún skilaði 56 milljörðum til 13 þúsund heimila. Þar af fóru hátt í 20 milljarðar til aðeins 1% heimila.

Svo má nefna að 108 milljarða kr. lækkun húsnæðislána vegna gengislánadóma fór til 13 þúsund heimila, að meðaltali tæplega 8 millj. kr. á heimili. Slík lán buðust aðallega hálaunafólki eða efnameira fólki. En venjuleg heimili sem tóku hófleg verðtryggð lán til íbúðakaupa og hafa staðið í skilum hafa fengið litlar bætur þótt lán þeirra hafi stökkbreyst. Þetta frumvarp mun koma til móts við þau heimili.

Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti kemur fram að vera megi að aðlaga þurfi viðmiðanir fyrir niðurfærslunni þegar betri upplýsingar liggja fyrir úr umsóknum lántakenda ef kostnaður við þennan þátt aðgerðarinnar á að vera innan þeirra marka sem fjárlög setja aðgerðinni. Gert er ráð fyrir slíkri aðlögun í reglugerð sem ráðherra setur með tilliti til þátttöku í aðgerðinni, dreifingu þegar fenginna afskrifta og annarra slíkra atriða sem máli skipta fyrir ráðstöfun á fjárheimild í fjárlögum til lækkunar á húsnæðisskuldum heimilanna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að slíkt svigrúm sé til staðar.

Í frumvarpinu er fjallað um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á leiðréttingarhluta láns. Gert er ráð fyrir að skuld á jöfnunarreikningi skuli færð til lækkunar á leiðréttingarhluta lánsins. Samtals er talið að 1,4% af heildarfjárhæð verðtryggðra íbúðalána sé á greiðslujöfnunarreikningi eða um 17 milljarðar kr.

Tilgangur greiðslujöfnunarinnar er að aftra því að greiðslubyrði lána þyngist of mikið ef vísitala neysluverðs hækkar hraðar en laun almennt. Borin er saman fjárhæð afborgunar samkvæmt vísitölu neysluverðs og afborgun samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu. Mismunurinn færist á svokallaðan jöfnunarreikning sem myndar verðtryggða skuld sem ber sömu vexti og telst til höfuðstóls lánsins og bætist við eftirstöðvar þess. En verði afborgun miðað við greiðslujöfnunarvísitölu hærri en afborgun miðað við vísitölu neysluverðs lækkar greiðslujöfnunarreikningurinn.

Ráðstöfun leiðréttingar inn á greiðslujöfnunarreikning var gagnrýnd fyrir nefndinni enda væri mögulegt að skuld sem stæði eftir á jöfnunarreikningi í lok þriggja ára frá lokum upphaflegs lánstíma skyldi gefin lánþega eftir. Til lengri tíma litið hækka laun hins vegar hraðar en verðlag og því greiðist skuld á greiðslujöfnunarreikningi upp með tímanum.

Frá janúar 2010 til apríl 2014 hefur greiðslujöfnunarvísitala hækkað 7% umfram vísitölu neysluverðs. Vænta má að sú þróun haldi áfram og greiðslujöfnunin muni því öll greiðast upp á lánstímanum. Um 30 ár eru eftir af lánstíma flestra þeirra lána sem úrræðið snertir og aðeins í undantekningartilfellum sem skuldarar geta átt von á einhverri niðurfellingu þremur árum eftir að lánstíma lýkur.

Meiri hlutinn vill benda á að greiðslujöfnunarhlutinn ber sömu verðbætur og sömu vexti og skuldin í heild og hann er á sama veðrétti. Með því að greiða niður greiðslujafnaðarhlutann lækkar skuldin og greiðsluröðin er virt, en talið er að afturvirk breyting á greiðsluröð gæti valdið óvissu fyrir dómstólum. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn ekki tilefni til að gera breytingar á frumvarpinu hvað varðar greiðslujöfnun.

Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að úrræði frumvarpsins ættu að ná til fleiri hópa en heimila með verðtryggð húsnæðislán. Hér ber að líta til þess að frumvarpið byggist á ályktun Alþingis nr. 1/142 frá 28. júní 2013 um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem leiddi af ófyrirsjáanlegri höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána. Í 1. tölulið 1. þingsályktunarinnar var forsætisráðherra og ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna falið að setja á fót sérfræðingahóp sem skyldi útfæra og gera tillögur að mismunandi leiðum til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Það er því ljóst að frumvarpið felur í sér úrræði sem eru ætluð þeim hópi sem var með verðtryggt fasteignalán vegna húsnæðis til eigin nota á tilteknu tímabili og varð fyrir skakkaföllum af þeim sökum.

Þó að aðrir hópar telji að þeir eigi einnig tilkall til leiðréttingar verður að líta til þess að aðstæður þeirra voru aðrar. Það er rétt að margir hafa orðið fyrir áföllum en ógerlegt er að leysa úr málum allra þessara ólíku hópa með sama úrræðinu. Meiri hlutinn vekur athygli á að félags- og húsnæðismálaráðherra var með ályktun Alþingis nr. 1/142 falið að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórnin skilaði skýrslu nýverið og leggur til að unnið verði að uppbyggingu á virkum leigumarkaði, m.a. með því að tryggja húsnæðisöryggi, sanngjarna leigu og fjölbreytt framboð húsnæðis fyrir ólíka hópa með mismunandi þarfir. Að þessu sögðu hvetur meiri hlutinn stjórnvöld til að koma til móts við aðra hópa með öðrum úrræðum sem miðast við þeirra aðstæður.

Vakin var athygli nefndarinnar á því að ýmis vandkvæði kynnu að koma upp í tengslum við ólík tilvik hjúskaparbreytinga og að mikilvægt væri að geta brugðist við slíkum vanda. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ráðherra tryggi að skýrar reglur verði settar um meðferð einstakra tilvika sem þessara. Meiri hlutinn hefur verið upplýstur um að nú þegar sé hafin slík vinna í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Meiri hlutinn leggur til breytingar á þremur greinum. Breytingarnar eru tæknilegs eðlis og breyta ekki umfangi leiðréttingarinnar.

Vakin var athygli nefndarinnar á því að í 3. gr. skortir viðmið vegna 18 ára aldurstakmarks barna sem sótt geta um leiðréttingu vegna látinna foreldra. Meiri hlutinn leggur til að miðað verði við að börn sem sótt geti um verði 18 ára á árinu 2014. Er gerð breytingartillaga þess efnis.

Einnig var vakin athygli nefndarinnar á því að ósamræmi er á milli 8. gr. og 11. gr. frumvarpsins. Í 8. gr. er miðað við fasteignaveðlán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota en undir 11. gr. falla fasteignaveðkröfur í víðara samhengi. Ekki liggur fyrir hvort fasteignaveðlán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis sem glatað hafa veðtryggingu hafa verið aðgreind sérstaklega frá öðrum fasteignaveðlánum sem glatað hafa veðtryggingu. Þetta er talið geta valdið vandkvæðum í framkvæmd. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til að 8. gr. verði breytt og að fullt samræmi verði á milli ákvæðanna hvað þetta varðar.

Bent var á að rangt er farið með dagsetningu samkomulags um sértæka skuldaaðlögun í b-lið 2. mgr. 8. gr. Upphaflega samkomulagið um sértæka skuldaaðlögun er frá 31. október 2009 en ekki 31. október 2010. Um misritun er að ræða í frumvarpinu. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu til lagfæringar.

Meiri hlutinn telur rétt að taka af allan vafa um að fyrirkomulag eða aðferð einstakra lánveitanda við framkvæmd 110%-leiðarinnar skipti ekki máli þegar metið verður hvað komi til frádráttar skv. c-lið 1. mgr. 8. gr. Sem dæmi kemur fram á vefsíðu að viðkomandi banki hafi gengið lengra en samkomulag um 110%-leið gerði ráð fyrir. Einnig kemur fram á vefsíðu bankans að ekki hafi þurft að sækja um úrræðið heldur hafi verið unnt að afþakka það í netbanka fyrir 1. júlí 2011. Það er skilningur meiri hlutans að með frumvarpinu sé stefnt að því að slík framkvæmd á 110%-leiðinni sem hér er rakin að framan yrði felld undir c-lið 1. mgr. 8. gr. við framkvæmd leiðréttingarinnar samkvæmt frumvarpinu. Breyta framangreind atriði um framkvæmd bankans á úrræðinu þar engu um.

Áréttingu sama efnis er að finna í skýringum við c-lið 1. mgr. 8. gr. í frumvarpinu. Spurningar hafa vaknað og fram komið athugasemdir um þetta og sú skoðun hefur verið látin í ljós að ákvæðið sjálft sé ekki nægilega skýrt hvað þetta varðar. Af þeim sökum telur meiri hlutinn ástæðu til að skerpa á orðalagi ákvæðis c-liðar 1. mgr. 8. gr.

Í 8. málslið 4. mgr. 11. gr. er kveðið á um að leiðréttingarhluti láns skuli bera sömu vexti og frumhluti lánsins frá útreikningsdegi. Meiri hlutinn telur ekki hentugt að festa í lög hvernig vaxtakjörum skuli háttað við þessar aðstæður þar sem um tvo greiðendur er að ræða sem búa við mismunandi lánakjör, þ.e. ríkissjóð og einstaklinga.

Að lokum var athygli nefndarinnar vakin á því að erfitt er að sjá hvernig eigi að fara með þegar eignir sem eru í lánaleiðréttingarferli eru seldar og kaupendur yfirtaka lán. Meiri hlutinn telur slíkt geta rúmast innan reglugerðarheimildar samkvæmt lokamálsgrein 11. gr. en það kemur hins vegar ekki fram með skýrum hætti. Meiri hlutinn telur til bóta að taka af allan vafa og árétta heimild ráðherra til að kveða á um í reglugerð hvernig skuli fara með frum- og leiðréttingarhluta lána við sölu á fasteign. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er komið til móts við heimilin í landinu með almennum aðgerðum sem ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra lána hjá hátt í 70 þúsund heimilum án þess að fórna sjálfbærni og stöðugleika við stjórnun ríkisfjármála. Það hefur verið forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að finna lausnir á skuldamálum heimilanna. Með frumvarpinu er stigið mikilvægt skref á þeirri braut og því ber að fagna.

Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í þskj. 1068.

Undir nefndarálitið rita þann 9. maí 2014 eftirtaldir hv. þingmenn: Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Brynjar Níelsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.