143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú þakka ég hv. þingmanni hreinskilnina þegar hann segir að mótvægisaðgerðin geti falist í því að gera ungu fólki erfiðara að kaupa sína fyrstu íbúð. (Gripið fram í.) Ungt fólk sem ekki á íbúð í dag þyrfti sem sagt að borga kostnaðinn fyrir þá sem fá úrlausn núna. (Gripið fram í.) Veðþekjan yrði lækkuð, kröfur gerðar um að ekki væri hægt að skuldsetja sig meira en 75%. Það væri nú einmitt mjög gott framlag til þeirra sem nú þegar eiga erfitt með að fjármagna 20% útborgun í húsnæði á núverandi verði.

Reikningar okkar á kostnaði vegna vaxtaþáttarins eru auðvitað byggðir á því sem Seðlabankinn sjálfur segir. Hv. þingmaður verður að viðurkenna það sem Seðlabankinn segir í sinni greiningu að hann muni hækka vexti og þeir verði hærri um nokkuð langt skeið vegna þessarar aðgerðar. Það mun leiða til kostnaðar. Þetta segir Seðlabankinn sjálfur í greiningu sinni. Hann er sjálfstæð stofnun og hv. þingmaður verður (Forseti hringir.) að læra það (Gripið fram í.) á þingferli sínum að menn (Forseti hringir.) þurfa að fallast á það mat sem Seðlabankinn sjálfur leggur á (Gripið fram í.) forsendur að þessu leyti.