143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála því, en aðhaldið verður greitt af öðrum en þeim sem njóta núna. Ég spyr á móti hv. þingmann: Af hverju þarf fólk sem er með 10% hæstu launin í landinu að fá eitthvað út úr þessari aðgerð? Af hverju þarf fólk sem er með skuldlausa eign upp á, segjum bara 40 milljónir og meira svo við áætlum þetta ríflega, 50 milljónir eða meira, að fá eitthvað úr þessari aðgerð? Af hverju má ekki setja mörk einhvers staðar? Það er ekkert réttlæti í því. Það sem umfang aðgerðanna leiðir hins vegar til er að neikvæðu efnahagsáhrifin verða meiri, þensluáhrifin meiri og þar af leiðandi munu leigjendur, þeir sem ekkert fá, borga meira í hærra vaxtastigi, í hærri verðbólgu, fyrir úrlausn handa forríku fólki. Það er ósanngirnin í þessu máli.