143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni greiddum við þingmenn Bjartrar framtíðar atkvæði með því að þessara tekna yrði aflað, sem sagt að bankaskatturinn yrði lagður á. Hann mun skila sér í ríkissjóð en þetta eru ótryggar tekjur, ég fór líka yfir það.

Við teljum að það sé síðan sérstakt mat einfaldlega hvernig á að nýta þá fjármuni sem best. Það er ekki augljóst að mínu viti að best sé, og alls ekki augljóst, ég segi beinlínis þvert nei við því, að nýta þá fjármuni svona. Búið er að setja verulegt púður í skuldamál heimilanna, um 250 milljarðar hafa verið afskrifaðir af skuldum heimilanna, ekki blasir við sviðin jörð þar lengur, ekki fjöldagjaldþrot.

Það er fólk í vanda, við erum ekki að hjálpa því með þessum aðgerðum. Þessa peninga þarf að nota í aðra hluti einfaldlega. (Forseti hringir.) Ég sagði í ræðu minni að mér fyndist það verulega ámælisvert að ekki hafi verið greint í fjármála- og efnahagsráðuneytinu (Forseti hringir.) hvernig mætti nota þessa peninga sem best í þágu heimilanna, atvinnulífsins, þjóðarinnar.